Ísraelska þingið samþykkir áætlun Sharons um brotthvarf frá Gaza

Sharon tekur við hamingjuóskum þingmanna að lokinni atkvæðagreiðslu. Sonur hans, …
Sharon tekur við hamingjuóskum þingmanna að lokinni atkvæðagreiðslu. Sonur hans, Omri, leggur hönd á öxl hans. AP

Ísraelska þingið samþykkti á sögulegum fundi í kvöld áætlun Ariels Sharons forsætisráðherra um brottflutning ísraelsks herliðs frá Gazasvæðinu og að ísraelskar landnemabyggðir þar og á hluta Vesturbakkans verði lagðar niður.

Þetta er í fyrsta sinn sem þingið samþykkir að lagðar verði af landnemabyggðir á svæðum sem Palestínumenn gera tilkall til sem hluta af sjálfstæðu Palestínuríki.

Þrátt fyrir að andstæðingar Sharons hafi á síðustu stundu reynt að koma í veg fyrir að atkvæðagreiðslan færi fram fékk Sharon áætlun sína samþykkta með miklum meirihluta; 67 þingmenn samþykktu hana en 45 voru á móti og sjö sátu hjá. 120 sæti eru á þinginu en einn þingmaður var fjarverandi vegna veikinda.

Sigur Sharons var tryggður með atkvæðum þingmanna friðarsinnaðra stjórnarandstöðuflokka, en margir þingmenn úr stjórninni og stjórnarandstöðuflokkum heittrúaðra greiddu atkvæði gegn áætluninni.

Allir ráðherrar í stjórn Sharons studdu hann, þótt nokkrir ráðherrar í flokki hans, Likudbandalaginu, þeirra á meðal Benjamin Netanyahu fjármálaráðherra, hafi rétt áður en atkvæðagreiðslan fór fram boðað til skyndifundar að því er talið er til að reyna að fá Sharon til að gefa eftir í einhverjum atriðum gegn því að þeir styddu hann.

Áætlunin hefur valdið miklum klofningi meðal Ísraela og breytt Sharon úr helsta bandamanni ísraelskra landnema í erkióvin þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert