Gaddafí segir öryggisráðið ólýðræðislegt og réttast að leggja það niður

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Muammar Gaddafí Líbýuleiðtogi takast í …
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Muammar Gaddafí Líbýuleiðtogi takast í hendur í tjaldi leiðtogans í eyðimörkinni fyrir utan höfuðborg landsins, Trípólí. AP

Moammar Gaddafí Líbýuleiðtogi segir að ætli Sameinuðu þjóðirnar að verða fullkomlega lýðræðisleg samtök verði að leggja öryggisráðið niður og fela völd þess í hendur allsherjarþinginu.

Í heilsíðuauglýsingu í breska blaðinu The Guardian í dag segir Gaddafí ennfremur að öryggisráðið sé „andstyggilegt, öflugt og skelfilegt einræðisstjórnunartæki ... engin leið er að áfrýja ákvörðunum þess, jafnvel þótt þær ákvarðanir séu ósanngjarnar, hlutdrægar og skaðlegar“.

Í öryggisráðinu eiga fimm lönd fastafulltrúa, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Rússland og Kína, og hefur hver um sig neitunarvald. Auk þeirra sitja fulltrúar tíu kjörinna ríkja í ráðinu í tvö ár í senn.

Gaddafí sagði að allsherjarþingið, þar sem 191 fulltrúi á sæti, endurspegli heimsbyggðina betur, þótt það „hafi engin völd, beri enga ábyrgð og njóti engrar virðingar“.

Líkir Gaddafí allsherjarþinginu við kjaftaklúbb og sýndarveruleika og segir það sé peningaeyðsla fyrir ríki heims að senda fulltrúa til New York „til að taka þátt í þessum fáránlega og hlægilega leik“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert