Vanunu fær ekki hæli í Noregi

Mordechai Vanunu.
Mordechai Vanunu. AP

Ísraelinn Mordeachai Vanunu, sem ljóstraði upp um kjarnorkuvopnaáætlanir Ísraels, fær ekki hæli í Noregi eins og hann sóttist eftir, að því er norsk yfirvöld greindu frá í dag.

Vanunu var kjarnorkuvísindamaður og starfaði við Dimona kjarnorkuverið í Ísraela á níunda áratugnum. Hann sat 18 ár í fangelsi eftir að hann veitti bresku dagblaði upplýsingar um kjarnorkuleyndarmál Ísraela.

„Það fær enginn hæli í Noregi nema hann leggi beiðnina fram hér,“ sagði Erna Solberg, ráðherra í norsku ríkisstjórninni. Sagði Solberg að norska stjórnin ætlaði ekki að eiga frumkvæði að því að bjóða Vanunu hæli í Noregi, en þetta kom fram í viðtali við hana í norska ríkisútvarpinu, NRK.

Í viðtali við sömu útvarpsstöð sagði Vanunu, að sér hefði ekki verið tilkynnt formlega um ákvörðun Norðmanna. Frá því að Vanunu, sem er fimmtugur, var sleppt úr fangelsi fyrir ári síðan, hefur honum verið bannað að yfirgefa Ísrael eða ræða við erlenda blaðamenn án þess að fá til þess sérstakt leyfi. Segja ísraelsk stjórnvöld að þau óttist að hann hyggist upplýsa um fleiri kjarnorkuleyndarmál Ísraela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert