Einn af hverjum 138 Bandaríkjamönnum í fangelsi

Föngum í bandarískum fangelsum fjölgar sífellt og eru nú einn af hverjum 138 Bandaríkjamönnum í fangelsi. Alls eru 2,1 milljón manna í fangelsi í Bandaríkjunum, meira en í nokkru öðru ríki, að því er fram kemur í frétt BBC.

Ríkisstjórnin segir að handtökur og fangelsun glæpamanna sé aðferð sem virki. Nýjustu tölur sýni að ofbeldisglæpum og morðum hafi fækkað.

Sumir gagnrýna þá stefnu, segja rangt að nota ekki líka aðferðir sem feli í sér minni hörku til að berjast gegn glæpum.

Nýjustu upplýsingar sýna að föngum hefur fjölgað um 48.452 eða 2,3% síðan 30 júní 2004.

Af hverjum 100.000 íbúum í Bandaríkjunum eru 726 í fangelsi eða fimmfalt fleiri en í Bretlandi þar sem þeir eru 142, og tólf sinnum fleiri en í Japan þar sem þeir eru einungis 58.

Föngum hefur fjölgað mest í Minnesota-ríki, eða um 13,2% á síðustu 12 mánuðum.

Mikill munur er fjölda fanga eftir þjóðfélagsstöðu og kynþætti. Þannig eru 12,6% svartra karlmanna á aldrinum 25-30 ára í fangelsi, samanborið við 3,6%, karla frá rómönsku Ameríku og 1,7% hvítra karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert