IRA skipar liðsmönnum að hætta vopnaðri baráttu

Veggmynd, sem táknar IRA-sveitir, á húsvegg í Belfast.
Veggmynd, sem táknar IRA-sveitir, á húsvegg í Belfast. AP

Írski lýðveldisherinn, IRA, hefur skipað liðsmönnum sínum að hætta vopnaðri baráttu frá og með deginum í dag. Hafa samtökin birt yfirlýsingu þessa efnis. Samtökin munu ekki verða lögð niður en þau ætla að einbeita sér að friðsamlegri aðferðum í baráttu sinni, sem staðið hefur í 35 ár.

Í yfirlýsingunni segir að liðsmönnum IRA hafi verið skipað að „hætta vopnaðri baráttu.“

Samtökin munu leggja niður vopn klukkan fjögur í dag.

Í yfirlýsingunni er liðsmönnum sagt að „hjálpa til við að ná stjórnmálalegum og lýðræðislegum markmiðum samtakanna eingöngu með friðsamlegum leiðum.“

Leiðtogar samtakanna segjast ætla að bjóða einum fulltrúa mótmælenda og einum fulltrúa kaþólikka til athafnarinnar þar sem formlega verða lögð niður vopn.

Samtökin báðu bresk stjórnvöld og mótmælendur á Norður-Írlandi um að virða þetta skref og taka upp viðræður á ný. Samið var um vopnahlé árið 1997.

Leiðtogar mótmælenda eru tortryggnir og segjast ætla að bíða í nokkra mánuði til að sjá hvort samtökin standi við orð sín. Benda þeir á að IRA hafi gert samkomulag um að afvopnast um mitt ár 2000 en ferlið hafi ekki hafist fyrr en seint 2001 og síðan hafi það stöðvast árið 2003.

Sérfræðingar í öryggismálum telja að IRA geymi mest af vopnum sínum í neðanjarðarbyrgjum á Írlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert