Hótar árásum á Los Angeles og Melbourne

Á myndbandi, sem sýnt var í fréttum bandarísku ABC sjónvarpsstöðvarinnar í dag, hótar maður, sem segist vera meðlimur í al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum í Bandaríkjunum, árásum á Los Angeles í Kalíforníu og Melbourne í Ástralíu í tilefni þess að 4 ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á New York og Washington.

ABC sagðist hafa fengið myndbandið frá Pakistan. Þar segist grímuklæddur maður vera Adam Gadahn frá suðurhluta Kalíforníu. Hann hótar árásum á borgirnar tvær og segir að árásarmennirnir muni ekki sýna neina miskunni.

„Í gær, London og Madríd. Á morgun, Los Angeles og Melbourne," segir hann. „Við elskum friðinn en friðurinn verður að vera á okkar forsendum."

Talið er að Gadahn sé sami maðurinn og kom fram í myndbandi fyrir ári. Hann mun hafa tekið íslamstrú í mosku í Orange-sýslu í Kalíforníu þegar hann var unglingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka