Forseti Níkaragva nær samkomulagi við Sandínista

Enrique Bolanos, forseti Níkaragva.
Enrique Bolanos, forseti Níkaragva. AP

Enrique Bolanos, forseti Níkaragva, hefur ákveðið í samráði við leiðtoga hinna vinstrisinnuðu stjórnarandstæðinga í Sandínistaflokknum, Daniel Ortega, að fresta til næsta árs stjórnarskrárbreytingu sem minnka átti völd forsetans.

Samtök Ameríkuríkja höfðu áður varað við því að lýðræðinu yrði stefnt í hættu við slíka breytingu og líklegt þótti að sú breyting myndi veikja stöðu ríkisstjórnarinnar.

Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, Robert B. Zoellick, sagði að Bandaríkin myndu hætta allri fjárhagsaðstoð við landið ef stjórnarandstaðan léti ekki af þeirri iðju að grafa undan forsetanum. Forsetinn segir stjórnmálaflokk sinn, Frjálslynda, hafa snúist gegn sér með því vinna með Sandínistum, fyrrum andstæðingum flokksins, vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að lögsækja formann flokksins, Arnoldo Alemann, fyrir spillingu. Hann afplánar nú 20 ára fangelsisdóm.

Sandínistar og Frjálslyndir eru í ráðandi stöðu á þinginu og hafa þegar svipt sex ráðherra friðhelgi og er nú til umræðu að þingið kæri Bolanos fyrir embættisbrot og lýsi hann vanhæfan til að gegna starfi forseta vegna meints fjársvindls í kosningabaráttu hans. Forsetinn heldur því fram að um hægfara valdarán að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert