Bjóðast til að bæta tjón á lögreglustöð í Basra

Breska ríkisstjórnin hefur boðist til að greiða miska- og skaðabætur vegna manntjóns og skemmda, sem breskir hermenn unnu á lögreglustöð í Basra í Írak nýlega. Fyrir þremur vikum brutu breskir hermenn niður veggi í lögreglustöðinni til að bjarga tveimur óeinkennisklæddum hermönnum, sem höfðu verið handteknir.

Nokkrir Írakar létu lífið og særðust þegar veggir lögreglustöðvarinnar voru brotnir niður. Í kjölfarið brutust út óeirðir í borginni og beindust þær gegn breska setuliðinu.

Breska sendiskrifstofan í Basra og borgarráð borgarinnar sendu frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt var um tilboð Breta og jafnframt var harmað að menn hefðu látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert