Jyllands-Posten hótað vegna teikninga af Múhameð

Danska dagblaðið Jyllands-Posten hefur ráðið sér öryggisverði til þess að vernda blaðamenn vegna morðhótana sem blaðinu bárust eftir að það birti teikningar af Múhameð spámanni.

Öryggisverðir gæta nú byggingar dagblaðsins í Kaupmannahöfn en fjöldi hótana hefur borist blaðinu, segir í frétt á vefsíðu þess. Þann 30. september síðastliðinn voru birtar 12 teikningar af Múhameð spámanni eftir jafnmarga teiknara sem hver og einn kom með sína túlkun á því hvernig hann gæti mögulega hafa litið út.

Blaðinu barst hótun símleiðis samdægurs birtingunni þar sem einum hinna 12 teiknara var hótað lífláti. Skömmu síðar handtók lögreglan 17 ára pilt sem játaði á sig morðhótunina. Blaðamönnum og ritstjórum hafa allt frá þeim degi borist hótanir bæði með tölvupósti og símhringingum.

Aðalritstjóri blaðsins, Carsten Juste, segir blaðið hafa gripið til nauðsynlegra varúðarráðstafana sökum þessa og beðið starfsmenn sína að vera sérstaklega vel á varðbergi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert