Bush: Trúverðugleiki Bandaríkjanna beið hnekki vegna Íraksmálsins

Bush á fréttamannafundinum í Hvíta húsinu í dag.
Bush á fréttamannafundinum í Hvíta húsinu í dag. Reuters

Rangt mat á gereyðingarvopnaeign Íraka hefur dregið úr trúverðugleika Bandaríkjanna og leitt til þess að hvarvetna hafa starfsaðferðir leyniþjónustu verið teknar til endurskoðunar, sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti á fréttamannafundi í dag.

Hann viðurkenndi að villandi upplýsingar um meint gereyðingarvopn, sem voru meginforsenda herfararinnar til Íraks, gætu gert Bandaríkjastjórn erfiðara um vik að sannfæra umheiminn um að Íranar væru að reyna að koma sér upp kjarnavopnum.

„Ekki spurning að mistök leyniþjónustunnar um gereyðingarvopn leiddi til þess að allar leyniþjónustur hafa orðið að nema staðar og endurskoða aðferðirnar við að safna og greina upplýsingar,“ sagði Bush á fréttamannafundi í Hvíta húsinu. „Fólk segir sem svo, ef við reynum að gera grein fyrir stefnunni gagnvart Íran, ja, leyniþjónustan brást í Írak þannig að hvernig getum við treyst upplýsingum um Íran?“

Bush hefur áður viðurkennt að það mat leyniþjónustunnar að Saddam Hussein ætti gereyðingarvopn hafi ekki átt við rök að styðjast. En hann kveðst sannfærður um að Saddam hafi haft uppi áform um að smíða slík vopn, og því hafi það verið réttlætanlegt að hrekja hann frá völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert