Paul Watson hótar japönskum hvalveiðimönnum

Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988.
Paul Watson leiddur út úr Síðumúlafangelsi í janúar 1988. Morgunblaðið/ Sverrir

Paul Watson, forsvarsmaður Sea Sheperd samtakanna sem sökktu tveimur íslenskum hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn árið 1986, sendi nýverið tölvupóst til stuðningsmanna sinna þar sem hann segist búast við því að lenda í átökum við japanska hvalveiðimenn. Skip Watsons, Farley Mowat, stefnir nú í átt að japanska hvalveiðiflotanum.

„Við búumst við því að skip okkar verði fyrir skemmdum en takmark okkar er að stöðva ólöglegar veiðar þeirra og við hættum á að missa skipið til þess að ná því,“ segir í pósti Watson. Áhöfnin sé reiðubúin og full eftirvæntingar hvað það varði.

Umhverfisráðherra Ástralíu, Ian Campbell, segir hótanir samtakanna gagnslausar í baráttunni gegn hvalveiðum og óttast að verið sé að leggja fólk í lífshættu. Ráðherrann segir hótanir samtakanna hafa áhrif til hins verra og fordæmir ummæli Watsons sem hann telur jaðra við sturlun.

Watson segir litlu hafa munað að japanska hvalveiðiskipið Nisshin Maru hafi siglt utan í skip hans. Skip Sea Sheperd og Greenpeace samtakanna hafa eltst við japanska hvalveiðiflotann við suðurheimsskautssvæðið í nokkra daga og tafið fyrir veiðum í rannsóknarskyni. Slíkar veiðar eru leyfðar samkvæmt samkomulagi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Talsmaður Greenpeace segir starfsemi samtakanna tveggja aðskilda og að Greenpeace taki ekki þátt í því að sigla á japönsk hvalveiðiskip eða stefna lífi sjómanna í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert