Osama bin Laden býður Bandaríkjamönnum friðarsamning

Osama bin Laden.
Osama bin Laden. Reuters

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera lék í dag segulbandsupptöku sem Osama bin Laden, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, var sagður hafa gert. Á upptökunni býður bin Laden bandarísku þjóðinni langtímavopnahléssamning svo hægt sé að byggja upp Írak og Afganistan en varar jafnframt við yfirvofandi árásum á Bandaríkin.

„Það er okkur ekki á móti skapi að bjóða ykkur vopnahléssamning sem er sanngjarn og gildir til langst tíma... svo við getum byggt upp Írak og Afganistan... það er engin skömm að slíkri niðurstöðu því hún kemur í veg fyrir að milljörðum dala sé sóað... af stríðsæsingamönnum," segir bin Laden. Ekki kom fram í þeim köflum, sem leiknir voru í hverju þessi sáttmáli átti að vera fólginn.

Bin Laden sagði einnig, að hert öryggisgæsla í Bandaríkjunum sé ekki ástæða þess að ekki hafi verið gerðar nýjar árásir á Bandaríkin frá 11. september 2001. Ástæðan sé sú að fyrirhugaðar aðgerðir taki langan tíma í undirbúningi, „en þið munið sjá þær í húsum ykkar ef Guð lofar."

Þetta er í fyrsta skipti í rúmt ár, sem leikin hefur verið segulbandsupptaka frá bin Laden. Ekki kemur fram hvenær lesið var inn á spóluna. Ahmed al-Sheik, aðalritstjóri Al-Jazeera, sagði við AP fréttastofuna að svo virtist sem spólan væri nýleg en vildi ekki upplýsa hvernig hann hefði komist að þeirri niðurstöðu. Hann sagði að spólan væri um 10 mínútna löng og fjórir kaflar á henni, sem hefðu þótt fréttnæmir, hefðu verið spilaðir í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert