Sýrlandsforseti sakaði Ísraela um að hafa myrt Yasser Arafat

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sakaði í dag Ísraelsstjórn um að hafa tekið Yasser Arafat, fyrrverandi leiðtoga Palestínumanna, af lífi á síðasta ári. Arafat var 75 ára þegar hann lést á sjúkrahúsi í París í nóvember árið 2004 eftir stutt veikindi en ekkert hefur verið látið uppi um dánarorsök hans.

„Af öllum þeim morðum sem Ísraelsstjórn hefur staðið fyrir á kerfisbundinn hátt er morðið á Yasser Arafat það hættulegasta,“ sagði Assad á fundi með lögfræðingum í dag og bætti við að morðið hafi verið framið fyrir allra augum. Hafi ekkert ríki þorað að mótmæla morðinu eða ýja að því að Ísraelsstjórn hafi tekinn Arafat af lífi.

Ísraelsstjórn hefur neitað að bera ábyrgð á veikindunum sem drógu Arafat til dauða og segjast ekki hafa eitrað fyrir honum.

Embættismenn í Ísrael benda á að Arafat hafi átt kost á læknisþjónustu, mat, vatni og lyfjum á þeim tveimur árum sem hann var einangraður á skrifstofu sinni í Ramallah.

Þá hafa franskir læknar, sem höfðu Arafat í umsjón sinni, neitað því að eitrað hafi verið fyrir honum. Þeir hafa hins vegar neitað að opinbera læknaskýrslur sínar og vitna til persónulaga máli sínu til stuðnings.

Haft hefur verið eftir aðstoðarmönnum Arafats að leiðtoginn fyrrverandi hafi mælst með lítið af blóðkornum skömmu áður en hann féll í dá. Þá fékk hann heilablóðfall og hrakaði líðan hans stöðugt eftir það. Ekkert hefur verið látið uppi hver dánarorsök hans var.

Reuters

Palestínumenn með mynd af Yasser Arafat, sem lést árið 2004, …
Palestínumenn með mynd af Yasser Arafat, sem lést árið 2004, í Ramallah. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert