Kjörstöðum lokað í Hvíta-Rússlandi

Ríkissjónvarp Hvíta-Rússlands segir að kjörstöðum í forsetakosningum hafi verið lokað klukkan 18 að íslenskum tíma. Almennt er búist við að Alexander Lúkasjenkó, forseti landsins, vinni yfirburðasigur í kosningunum og verði endurkjörinn til 5 ára. Alexander Milinkevítsj, helsti frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, sagðist myndu hafna opinberum niðurstöðum þar sem stjórnvöld hefðu leynt og ljóst reynt að hafa áhrif á úrslit kosninganna.

Að sögn yfirkjörstjórnar landsins var kjörsókn orðin 87,8% af öllum skráðum kjósendum tveimur tímum áður en kjörstöðum var lokað.

Um 6000 manns komu saman á Oktyabrskayatorgi í miðborg Minsk, höfuðborgar landsins, til að mótmæla kosningaúrslitunum og svöruðu þannig kalli Milinkevítsj, sem væntanlegur var á torgið síðar í kvöld. Að sögn AFP fréttastofunnar voru lögreglumenn ekki sjáanlegir á torginu en rútur fullar af lögreglumönnum sáust í hliðargötum.

Hundruð stjórnarandstæðinga voru handtekin fyrir helgina. Lúkasjenkó hafði lýst því yfir fyrir helgina, að öryggissveitir muni „hálsbrjóta þá" sem taka þátt í mótmælaaðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert