Olíuverð hækkar vegna spennunnar í samskiptum Írana við umheiminn

Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hér sést ræða við blaðamenn …
Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hér sést ræða við blaðamenn í París í dag, er fulltrúi Bandaríkjanna á fundi embættismanna sex ríkja um Íran. AP

Hráolíuverð á heimsmarkaði hækkaði nú síðdegis og er það m.a. rakið til spennunnar sem ríkir í samskiptum Írans og alþjóðasamfélagsins vegna kjarnorkuáætlunar Írana. Fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands, Kína, Frakklands og Þýskalands sitja nú á fundi í París og reyna að móta sameiginlega stefnu gagnvart Íran en Alþjóða kjarnorkumálastofnunin staðfesti sl. föstudag að Íranar hefðu hunsað tilmæli öryggisráð Sameinuðu þjóðanna um að þeir hætti að auðga úran.

Verð á hráolíu hækkaði um 1,05 dali tunnan á markaði í New York í dag og var 74,75 dalir. Í Lundúnum hækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 1,08% og fór í 74,97 dali tunnan um tíma og hefur aldrei verið hærra. Verðið lækkaði lítillega aftur í 74,73 dali. Ákvörðun Bólivíustjórnar um að þjóðnýta orkulindir landsins, hafði einnig áhrif á verðið í dag.

Margir telja, að afstaða Írana gæti leitt til þess að öryggisráð SÞ ákveði að beita þá efnahagslegum þvingunum og jafnvel verði gripið til hernaðaraðgerða. Íranar gætu brugðist við refsiaðgerðum með því að draga úr olíuútflutningi sínum en landið er einn stærsti olíuframleiðandi heims.

Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra, sem situr fundinn í París fyrir hönd Bandaríkjastjórnar, sagði á blaðamannafundi í dag að SÞ væru að undirbúa harðorða ályktun um Íran. Sagði hann að öryggisráð SÞ hefði enga aðra kosti nú en að grípa til aðgerða í samræmi við 7. kafla stofnskrár SÞ en samkvæmt þeim kafla geta samtökin gripið til ýmissa aðgerða utan hernaðaraðgerða gagnvart ríkjum sem brjóta gegn ályktunum öryggisráðins.

Gholam Reza Aghazadeh, yfirmaður kjarnorkuráðs Írans, sagði í dag að búið væri að auðga úran í allt að 4,8% styrk en úran með 3-5% styrkleika þarf til að knýja raforkuver. Hins vegar þarf úran af 90% styrk í kjarnorkusprengju. Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði 9. apríl að Íranar hefðu gengið í kjarnorkuklúbbinn þegar því marki var náð að auðga úran í 3,5% styrk.

Aghazadeh sagði við írönsku ríkisfréttastofuna ISNA, að það væri ekki í samræmi við kjarnorkuáætlun Írana að auðga úran meira en í 5% styrk.

Í dag sagði Mohammad Ebrahim Dehghani, einn af helstu leiðtogum Byltingarvarðanna í Teheran, að fari Bandaríkjamenn með hervaldi gegn Íran muni Íranir svara með því að ráðast á Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert