Olmert segir herinn hætta aðgerðum um leið og gísl verður látinn laus

Forsætisráðherra Ísraela, Ehud Olmert, greindi ráðherrum landsins frá því í dag að hernaðaraðgerðum á Gaza-svæðinu yrði hætt þegar ísraelski hermaðurinn, sem er í haldi Hamas-liða, yrði látinn laus. ,,Ég ber persónulega ábyrgð á því sem er að gerast á Gaza. Ég vil ekki að neinn sofi á nóttunni á Gaza," er haft eftir Olmert.

Ónefndur embættismaður sem staddur var á fundi ríkisstjórnarinnar greindi AP fréttastofunni frá þessu. Ísraelsher hefur gert árásir og skotið viðvörunarskotum að Gaza í því skyni að þrýsta á Hamas-liða að frelsa gíslinn, en honum var rænt fyrir viku. Olmert segir hermenn forðast eftir fremsta megni að forðast að óbreyttir borgarar særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert