Vinnuhópar undirbúi samkomulag um stofnun ríkis Palestínumanna

Ehud Olmert, forsætirráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, á …
Ehud Olmert, forsætirráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, á skrifstofu Olmerts í Jerúsalem í dag. AP

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, ákváðu á fundi sínum í dag að skipa vinnuhópa til að vinna að undirbúningi að samkomulagi um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna.

Háttsettur ísraelskur embættismaður segir að hópunum sé ætlað að leggja allt kapp á það á næstu vikum að ná samkomulagi um grundvallaratriði friðarsamkomulags þar sem kveðið sé á um stofnun slíks ríkis. Ísraelskir embættismenn segja ísraelska ráðamenn þó leggja áherslu á að ekki sé um fyrstu skref formlegra friðarviðræðna að ræða.

„Leiðtogarnir tveir leggja áherslu á að þeir telji sig bundna hugmyndinni um tveggja ríkja lausn, þar sem þjóðirnar geta lifað í friði og öryggi,” segir í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna. Þá lýstu þeir því yfir eftir fund sinn í dag að Olmert hefði heitið því að mæla með því við ríkissstjórn Ísraels að ferðatakmörkunum á Vesturbakkanum verði aflétt og að palestínskum föngum verði sleppt úr fangelsum í Ísrael í tilefni af Ramadan, heilögum mánuði múslíma. Ísraelskir embættismenn höfðu áður staðhæft að Olmert myndi hafna slíkri beiðni kæmi hún fram á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert