Abbas hótar að sniðganga friðarráðstefnu

Mahmud Abbas.
Mahmud Abbas. Reuters

Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, mun ekki mæta til alþjóðlegrar ráðstefnu um deilur Ísraela og Palestínumanna í nóvember nema Ísraelar samþykki að ganga til hugsanlegra samninga við Palestínumenn þar. Ráðamenn í Ísrael lýstu því yfir í gær að beinar samningaviðræður Ísraela og Palestínumanna muni ekki fara fram a ráðstefnunni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að Ísraelar og Palestínumenn myndu ekki lýsa yfir samkomulagi um grundvallaratriði friðarsamnings á ráðstefnunni heldur einhvers konar viljayfirlýsingu.

“Segi Olmert að einungis verði um viljayfirlýsingu að ræða þá er það ekki þess virði að fara á þessa ráðstefnu í Washington," segir Nimr Hamad, ráðgjafi Abbas. Aðstoðarmenn Abbas hafa einnig sagt að þeir telji að þátttaka Abbas í ráðstefnunni geti reynst hættuleg.

"Við getum komist af án þessarar ráðstefnu en eigi hún sér stað og komi ekkert út úr henni annað en sameiginleg viljayfirlýsing, þá getur það skapað hættu á öllu svæðinu,” segir ónefndur palestínskur embættismaður.

"Við getum ekki tekið þátt í slíkri ráðstefnu. Við erum ekki að krefjast þess að fundin verði lausn á öllum deilumálum en við krefjumst einhvers konar tímamótaárangurs í viðræðum fyrir fundinn".

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanleg til Jerúsalem í dag til viðræðna við ísraelska og palestínska ráðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert