Markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri, mega ekki eiga fjölmiðla

Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna eftir ríkisstjórnarfundinn í dag.
Davíð Oddsson svarar spurningum fréttamanna eftir ríkisstjórnarfundinn í dag. mbl.is/Árni Torfason

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfundinn í dag þar sem frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum var samþykkt, að það væri viðhorf ríkisstjórnarinnar að það gangi ekki upp fyrir lýðræðislegar umræður að sami aðili eigi dagblað og ljósvakamiðil. „Frumvarpið gerir ráð fyrir að ljósvakamiðlar og dagblöð geta ekki verið á einni og sömu hendi,“ sagði Davíð.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og verðandi forsætisráðherra, sagðist ekki vilja tjá sig við fjölmiðla um innihald frumvarpsins fyrr en eftir fund í þingflokki Framsóknarflokksins.

Davíð sagði að frumvarpið gerði ráð fyrir að menn eða fyrirtæki, sem eru í markaðsráðandi stöðu í óskyldum rekstri, mega ekki eiga fjölmiðil. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðið er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að að fyrirtæki sem teljast markaðsráðandi í öðrum rekstri en fjölmiðlun geti ekki fengið úthlutað eða endurnýjað útvarpsleyfi til reksturs ljósvakamiðils.

Hann var spurður hvort frumvarpið myndi leið til breytinga á fjölmiðlamarkaði. Hann svaraði: „Þegar gerðar eru breytingar á lagaumhverfinu þá laga menn sig að því. Stundum hafa menn mjög skamman tíma til þess og stundum lengri, eins og í þessu tilfelli hafa menn lengri tíma,“ svaraði Davíð.

Hann var spurður að því hvort munur væri gerður í frumvarpinu á netmiðlum og prentmiðlum? „Þetta eru ljósvakamiðlarnir sem verið er að fjalla um í þessu frumvarpi. Ljósvakamiðlar og dagblöð geta ekki verið á einni og sömu hendi.“

Hann sagði að lögfræðingar hefðu farið yfir frumvarpið og reiknaði ekki með að fyrirtæki gætu farið í skaðabótamál vegna breytts lagaumhverfis.

Frumvarpið verður lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna á morgun. Davíð sagðist gera ráð fyrir miklum umfræðum um frumvarpið á Alþingi, en stefnt er að því að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok í vor. Forsætisráðherra mun flytja frumvarpið á Alþingi og sagði hann að ótal fordæmi væru fyrir því að forsætisráðherra flytti mál sem ríkisstjórnin stendur öll að. Davíð sagði að efnislega væri tekið á því sem nefnd menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum hefði talið nauðsynlegt að gert yrði í greinargerð sinni og Davíð bætti því við að það væri nánast skylda ríkisstjórnar og þings að taka á þeirri samþjöppun í fjölmiðlarekstri sem hér hafi orðið og yrði hvergi liðin annars staðar í heiminum.

Spurður hvort ákvæði frumvarpsins væru afturvirk, svaraði Davíð því neitandi. „Þetta er framvirkt frumvarp frumvarp, ekki afturvirkt,“ sagði forsætisráðherra.

„Frumvarpið er mjög skýrt og einfalt og klárt og auðvelt að skilja það þegar menn sjá það. Ég á því von á því að það gangi greiðlega í gegnum þingið og hljóti þar mikinn stuðn ing. Ég á ekki von á öðru,“ sagði forsætisráðherra.

Fram kom í máli hans að frumvarpsdrögin hefðu breyst mjög mikið frá því hann lagði þau fyrst fram og sagðist hann vera mjög sáttur við það. Komið hefðu lögfræðingar að vinnslu málsins, m.a. lögfræðingur af hálfu menntamálaráðuneytisins. „Það hefur verið haft fullt samráð við alla,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert