Ísrelar ætla að halda áfram að reisa aðskilnaðarmúrinn

Hluti aðskilnaðarmúrsins sem Ísraelar eru að reisa á Vesturbakkanum.
Hluti aðskilnaðarmúrsins sem Ísraelar eru að reisa á Vesturbakkanum. AP

Ísraelar segjast ætla að halda áfram að reisa aðskilnaðarmúrinn á Vesturbakkanum, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hafi samþykkt ályktun í gærkvöldi, þar sem múrinn er fordæmdur. Frá þessu er greint í frétt blaðsins Haaretz. 150 þjóðir greiddu atkvæði með ályktuninni, sex þjóðir greiddu atkvæði gegn henni og 10 þjóðir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna í gærkvöldi. „Byggingu múrsins verður haldið áfram,“ sagði Ranan Gissin, helsti ráðgjafi Ariel Sharons, forsætisráðherra Ísraels, í morgun.

„Ísrael mun ekki hætta að byggja hann, né afsala sér rétti til sjálfsvarnar,“ bætti Gissin við.

Þau lönd sem greiddu atkvæði gegn ályktun allsherjarþingsins auk Ísraels, voru Bandaríkin, Míkrónesía, Marshall-eyjar, Palau og Ástralía. Kanada, Úrúgvæ, Kamerún, Tonga, El Salvador, Úganda, Papúa-Nýja Gínea, Nárú og Salómonseyjar sátu hjá.

Allsherjarþingið hefur ekki vald til að neyða ríki til að fara eftir ráðleggingum þess, en málið gæti farið til öryggisráðs SÞ sem gæti beitt viðskiptaþvingunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert