Áður óþekkt samtök segjast bera ábyrgð á hótelsprengingu

Ísraelskir ferðamen koma yfir landamærin frá Egyptalandi í kvöld eftir …
Ísraelskir ferðamen koma yfir landamærin frá Egyptalandi í kvöld eftir að hafa heyrt af sprengingunum í Tapa og nágrenni. AP

Maður, sem sagðist vera fulltrúi áður óþekkts hóps, sem hann kallaði Íslömsku heimssamtökin, hringdi á ritstjórnarskrifstofur AFP fréttastofunnar í Jerúsalem og sagði að samtökin bæru ábyrgð á sprengingu sem varð við Hilton hótelið í Tapa í Egyptalandi í kvöld. Lögregla í Egyptalandi segir að 35 manns að minnsta kosti hafi látið lífið í sprengingunni og tveimur öðrum sprengingum í nágrenninu og 125 særst.

Sagði maðurinn að sprengjuárásin væri hefnd fyrir þá Palestínumenn og Araba sem látið hefðu lífið í Palestínu og Írak.

Ísraelska sjónvarpið sagði í kvöld að bílsprengja hefði sprungið skammt frá innganginum í hótelið. Nokkru síðar urðu tvær sprengingar á tjaldsvæði skammt frá.

Mustafa Afifi, héraðsstjóri í Suður-Sinai sagði í kvöld að tveir sendiferðabílar hefðu staðið í ljósum logum á tveimur tjaldstæðum suður af Taba og því væri líklegt að um hefði verið að ræða bílsprengjur.

Sjúkrabílum var í kvöld ekið fram og aftur yfir landamæri Egyptalands og Ísraels milli Tapa og Eilat í Ísrael en ísraelskir bráðaliðar fengu leyfi til að sækja særða og flytja þá til Ísraels.

Talið er að 12-15 þúsund Ísraelsmenn séu staddir á Sinaiskaga en nú er að ljúka vikulangri trúarhátíð í Ísrael og eru almennir frídagar á meðan. Er talið að 12-15 þúsund Ísraelsmenn séu á ferðamannastöðum við Rauðahaf. Ísraelska utanríkisráðuneytið undirbýr að flytja þá Ísraelsmenn heim sem það vilja.

Ísrael hertók Sinaiskaga á sínum tíma en skilaði honum aftur til Egypta í tengslum við friðarsamning sem ríkin tvö gerðu 1979. Bærinn Tapa var þó undanskilinn og honum var ekki skilað fyrr en árið 1989 eftir að Alþjóðadómstóllinn kvað upp dóm í málinu.

Samskipti landanna tveggja hafa verið stirð eftir að uppreisn Palestínumanna hófst fyrir fjórum árum en þúsundir Ísraelsmanna fara samt reglulega til ferðamannastaða á Sinaiskaga og við Rauðahaf. Talið er að í sumar hafi um 300 þúsund Ísraelsmenn varið sumarleyfi sínu á Sinaiskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert