Karpinski sagði 11 ára dreng hafa verið meðal fanga í Abu Ghraib

Fanga í Abu Ghraib fangelsinu ógnað með hundi.
Fanga í Abu Ghraib fangelsinu ógnað með hundi. AP

Bandaríski herinn hélt m.a. börnum föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad í kjölfar falls Saddams Husseins, að því er Janis Karpinski, fyrrverandi yfirmaður fangelsisins, greindi frá við rannsókn á misþyrmingum bandarískra hermanna á íröskum föngum.

Sagði Karpinski m.a. frá því að hún hafi oft talað við yngstu fangana í fangelsinu, þ. á m. dreng sem hafi litið út fyrir að vera átta ára. „En hann sagðist vera næstum orðinn 12 ára. Hann sagði mér að bróðir sinn væri þarna með sér. Þeir vildu fá að fara til mömmu sinnar og báðu mig að hringja í hana. Hann var grátandi.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í afriti af yfirheyrslum yfir Karpinski er fram fóru í maí í fyrra. Bandarísku borgararéttindasamtökin (ACLU) fengu afritin afhent í samræmi við lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Bandarísk hernaðaryfirvöld hafa viðurkennt að sumir fanganna í Abu Ghraib hafi verið ungir að árum, en afritin af yfirheyrslunum yfir Karpinski eru fyrstu beinu sönnunargögnin um að 11 ára barni hafi verið haldið föngnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert