Japönsk stjórnvöld ákveða að leyfa Fischer að fara til Íslands

Bobby Fischer.
Bobby Fischer. AP

Japönsk stjórnvöld hafa ákveðið að leyfa Bobby Fischer að fara til Íslands þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi krafist framsals hans, að því er japanskir fjölmiðlar greina frá og fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC. Mun japanska dómsmálaráðuneytið hafa ákveðið þetta eftir að hafa fengið gögn er sönnuðu að Fischer hafi verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur.

Haft hafði verið eftir dómsmálaráðherra Japans, Chieko Noono, í gær, að það væri „lagalega mögulegt“ að senda Fischer til Íslands ef staðfest yrði að hann væri íslenskur ríkisborgari.

Sæmundur Pálsson segir, að borist hafi óstaðfestar fregnir frá lögmönnum Fischers í Japan þess efnis, að hann verði látinn laus í fyrramálið, eða í kvöld að Íslenskum tíma, og þá fluttur beina leið út á Narita-flugvöll í Tókýó og leggi af stað til Kaupmannahafnar um miðnætti í kvöld að íslenskum tíma. Kvaðst Sæmundur þá gera ráð fyrir að fara til Danmerkur og hitta Fischer þar og fylgja honum til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka