Átta létust í árás maóista á Indlandi

Átta létust þegar 100 uppreisnarmenn úr röðum herskárra maóista réðust á lögreglustöð og tvo banka í bænum Madhuban í Bihar héraði á norðaustanverðu Indlandi í dag. Á meðal hinna föllnu voru fimm uppreisnarmenn, tveir lögregluþjónar og vörður í öðrum bankanum.

Uppreisnarmenn hreinsuðu úr hirslum annars bankans og gerðu tilraun til að kveikja í lögreglustöð bæjarins.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndu uppreisnarmennirnir að flýja til nágrannaríkisins Nepal. Skutu þeir að uppreisnarmönnunum og felldu fimm.

Lögreglan telur að uppreisnarmennirnir tilheyri stórum hópi herskárra maóista sem hafast við í norður- og austurhluta Indlands. Áhlaup þeirra eru tíð og segjast þeir berjast fyrir réttindum fátækra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert