Enn allt á huldu um dánarorsök Yassers Arafats

AP

Yasser Arafat, fyrrverandi leiðtogi Palestínumanna, lést úr heilaáfalli í fyrra, en enn er allt á huldu um það hvað leiddi til áfallsins, samkvæmt niðurstöðum fyrstu óháðu rannsóknanna á læknaskýrslum um Arafat. Tvær rannsóknir, önnur á vegum The New York Times og hin á vegum tveggja ísraelskra fjölmiðla, leiddu til ólíkra niðurstaðna og gerir það málið enn flóknara.

Arafat var 75 ára þegar hann lést á sjúkrahúsi í París í nóvember í fyrra eftir stutt veikindi. Eiginkona hans, Suha, og palestínskir embættismenn hafa aldrei gefið afdráttarlaust svar við því hvað hafi dregið hann til dauða og hafa setið á læknaskýrslum hans eins og ormar á gulli.

„Leyndardómurinn um Yasser Arafat verður einungis meiri þegar þessar skýrslur er lesnar,“ sagði Avi Isacharoff, fréttamaður Ísraelska útvarpsins, sem ásamt blaðamönnum Haaretz kom höndum yfir læknaskýrslurnar. Nasser al-Kidwa, frændi Arafats og utanríkisráðherra í palestínsku heimastjórninni, var einn fárra manna sem hafði aðgang að Arafat og læknum hans í Frakklandi, og segir hann að niðurstöður rannsókna fréttamannanna varpi engu nýju ljósi á málið, og dánarorsökin sé enn ókunn.

Ísraelsku fréttamennirnir fengu sjúkraskýrslur Arafats frá ónafngreindum, háttsettum palestínskum embættismanni, og létu síðan NYT gögnin í té og gerði NYT sína eigin rannsókn á þeim.

NYT segir að heilaáfallið sem Arafat fékk hafi stafað af blóðsjúkdómi sem óþekkt sýking hafi valdið, en blaðið hafnaði því, sem orðrómur hefur verið á kreiki um, að eitrað hafi verið fyrir Arafat eða hann verið með alnæmi. Haaretz hefur eftir ísraelskum lækni að einkennin sem lýst er í skýrslunum komi ekki heim og saman við alnæmi. Engu að síður væri óviðunandi að frönsku læknarnir sem önnuðust Arafat skyldu ekki rannsaka hvort svo væri.

Margir háttsettir palestínskir embættismenn hafa fullyrt að Ísraelar hafi eitrað fyrir Arafat, en því neita Ísraelar alfarið. NYT segir ólíklegt að um eitrun hafi verið að ræða. Frönsku læknarnir hafi gert fjölmarkar rannsóknir í leit að eitrunum en ekki fundið neitt.

NYT segir að helsta ráðgátan sé hverskonar sýking það hafi verið sem leiddi að því er virðist til blóðsjúkdómsins sem aldrei tókst að lækna og leiddi Arafat á endanum til dauða. Hvorki læknarnir sem NYT fékk til liðs við sig né frönsku læknarnir sem önnuðust Arafat gátu staðsett sýkinguna í kviðarholi hans og aldrei var vitað hvaða sýklar ollu henni. Sagði blaðið að hugsanlega gæti hafa verið um matareitrun að ræða. Arafat veiktist hastarlega með ógleði, kviðverkjum og niðurgangi eftir að hann borðaði kvöldmat 12. október. Einkennin voru viðvarandi í rúman hálfan mánuð áður en hann var fluttur til Frakklands, þar sem hann lést 11. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka