Búist við þúsundustu aftökunni í Bandaríkjunum í næstu viku

Robin Lovitt.
Robin Lovitt. AP

Allar líkur eru á að Robin Lovitt verði næstkomandi miðvikudag þúsundasti dauðamaðurinn sem tekinn er af lífi í Bandaríkjunum síðan dauðarefsingar voru aftur teknar upp þar í landi 1976. Þá höfðu dauðarefsingar verið bannaðar þar í áratug. Nú bíða rúmlega 3.400 fangar, þ.á m. 118 erlendir ríkisborgarar, aftöku í Bandaríkjunum.

Lovitt er 41 árs. Hann var dæmdur til dauða fyrir að stinga mann til bana með skærum 1998. Fyrstu DNA-rannsóknir á skærunum voru ekki afgerandi, en skærunum var síðan fargað, að því er sagt var vegna skorts á geymslurými. Hæstiréttur neitaði í síðasta mánuði að taka mál Lovitts upp.

Fyrsti maðurinn sem líflátinn var eftir að hæstiréttur heimilaði dauðarefsingar aftur 1976 var Gary Gilmore, alræmdur smáglæpamaður sem hlaut dauðadóm fyrir morð á móteleiganda á því ári. Í fangelsinu reyndi hann að fremja sjálfsmorð og reifst harkalega við verjendur sína sem vildu áfrýja dauðadómnum gegn vilja hans.

„Drífum í þessu,“ voru síðustu orð Gilmores þegar hann var leiddur fyrir aftökusveit í Utah 1977.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert