Sharon fékk alvarlega heilablæðingu

Sjúkrabíll með Sharon innanborðs kemur að spítalanum í Jerúsalem.
Sjúkrabíll með Sharon innanborðs kemur að spítalanum í Jerúsalem. AP

Talsmaður Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, greindi frá því fyrir stundu að heilablóðfallið sem Sharon fékk í kvöld hafi verið mun alvarlegra en það sem hann fékk þann 18. desember síðastliðinn. Að sögn lækna er Sharon í öndunarvél og alvarlega veikur.

CNN greindi frá því Sharon hefði lamast í neðri hluta líkama og að blætt hefði inn á heila hans. Sharon átti að gangast undir aðgerð á morgun vegna gats sem fannst í hjarta hans eftir fyrra heilablóðfallið. Aðstoðarforsætisráðherra Ísrael, Ehud Olmert, hefur tekið við völdum sem forsætisráðherra.

Að sögn Shmuel Shapira, læknis á sjúkrahúsinu þar sem Sharon liggur, mun forsætisráðherrann gangast undir aðgerð í kvöld til að tappa blóði úr heila hans.

Sharon, sem er 77 ára, er allt of þungur en læknar, sem rannsökuðu hann eftir að hann fékk smávægilega heilablæðingu 18. desember sl. sögðu að hann væri að öðru leyti við nokkuð góða heilsu. Frá þeim tíma hefur Sharon lést um nokkur kíló.

Boðað hefur verið til þingkosninga 28. mars í Ísrael og býður Sharon sig þar fram til endurkjörs sem forsætisráðherra, nú fyrir nýjan miðflokk, Kadima, sem hann stofnaði eftir að hann sagði sig úr Likudflokknum nýlega. Kadima hefur haft mikið forskot á aðra flokka í skoðanakönnunum undanfarið en það er eingöngu vegna vinsælda Sharons og verði hann að draga sig í hlé er ljóst að mikið óvissutímabil er framundan í ísraelskum stjórnmálum.

Frá því Sharon fékk heilablóðfallið í desember hefur hann verið á blóðþynningarlyfjum til að reyna að koma í veg fyrir annað heilablóðfall. Hann átti að leggjast inn á sjúkrahús í Jerúsalem á morgun til að gangast undir smávægilega hjartaaðgerð til að loka örlitlu gati á hjartanu. Læknar sögðu að blóðköggull, sem komst upp í heila Sharons í desember, hafi komist út um þessa holu og þaðan í slagæð.

Ehud Olmert hefur tekið við embætti forsætisráðherra Ísraels tímabundið.
Ehud Olmert hefur tekið við embætti forsætisráðherra Ísraels tímabundið. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert