Lúkasjenkó sagður hafa fengið 89% atkvæða

Stuðningsmenn Alexanders Milinkevítsj veifa fánum á aðaltorgi Minsk í kvöld.
Stuðningsmenn Alexanders Milinkevítsj veifa fánum á aðaltorgi Minsk í kvöld. AP

Formaður yfirkjörstjórnar Hvíta-Rússlands tilkynnti í kvöld að Alexander Lúkasjenkó, forseti landsins, hefði fengið 89% atkvæða í forsetakosningunum í dag þegar búið sé að telja atkvæði frá nærri 20% kjörstaða. Þá hafi kjörsókn verið 92,6%. Stuðningsmenn helsta frambjóðanda stjórnarandstöðunnar komu saman á aðaltorgi höfuðborgarinnar Minsk í kvöld til að mótmæla kosningunum og krefjast þess að kosið verði að nýju.

Alexander Milinkevítsj, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, sagði í kvöld að kosningarnar í dag hefðu verið farsi sem stjórn landsins hefði sviðsett. Hann og Alexander Kozulin, sem einnig bauð sig fram í forsetakosningunum, hvöttu mannfjöldann á torginu til að koma þangað aftur á morgun og gefa þannig til kynna að langvinnar mótmælaaðgerðir yrðu í landinu eins og áður hefur gerst í Úkraínu og Georgíu og fleiri fyrrum Sovétlýðveldum.

Talið er að um 6000 manns hafi verið á torginu þegar flest en þegar líða fór á kvöldið fækkaði þar mjög enda er mjög kalt í landinu og kafaldsbylur var í höfuðborginni.

Samkvæmt kosningaspám, sem stjórnarandstaðan gerði, fékk Milinkevítsj um það bil 30% atkvæða í dag en Lúkasjenkó fékk undir 50% sem myndi þýða að kjósa yrði aftur á milli þeirra tveggja. Sergei Kaljakin, kosningastjóri Milinkevítsh, sem einnig er formaður kommúnistaflokks landsins, sagði að fréttir hefðu borist af víðtækum kosningasvikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert