Forsætisráðherra Frakklands virðist ekki ætla að láta undan kröfum mótmælenda

Frá mótmælum í París í fyrradag.
Frá mótmælum í París í fyrradag. Reuters

Forsætisráðherra Frakklands, Dominique de Villepin, virðist ekki ætla að breyta umdeildri löggjöf um atvinnumál ungs fólks, þrátt hótanir verkalýðsleiðtoga og stúdenta í landinu um allsherjarverkfall. Nái löggjöfin fram að ganga verður fyrirtækjum heimilt að segja upp fólki undir 26 ára aldri án sérstakrar ástæðu á fyrstu tveimur starfsárum þess hjá viðkomandi fyrirtæki.

Villepin sagði í viðtali við franskt tímarit fyrir ungmenni, að láta yrði á löggjöfina reyna, en hægt væri að lagfæra hana. Verkalýðsfélög hafa gefið ríkisstjórninni frest fram á kvöld í dag til að hætta við löggjöfina.

Fleiri en 160 voru handteknir í fyrradag í miklum mótmælum vegna löggjafarinnar, en til átaka kom undir lokin eftir að þau höfðu farið friðsamlega fram um daginn. Verkalýðsleiðtogar segja löggjöfina bjóða upp á að vinnuveitendur misnoti unga starfsmenn þar sem þeir geti rekið þá hvenær sem þeim sýnist án ástæðu. Ríkisstjórnin segir aftur á móti að löggjöfin muni draga úr atvinnuleysi ungs fólks.

Um 1,5 milljón mótmælenda lét í sér heyra í um 150 samkomum víðs vegar um Frakkland í fyrradag. Fyrirhugað allsherjarverkfall mun skella á þann 23. mars, þ.e. eftir þrjá daga. Fréttavefur BBC sagði frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert