Bandaríkin og Kína vilja „afdráttarlausar aðgerðir“ gagnvart Norður-Kóreu

George W. Bush Bandaríkjaforseti átti í dag fund með háttsettum kínverskum embættismanni, Tang Jiaxuan, og voru þeir sammála um að þörf væri á „afdráttarlausum aðgerðum“ vegna tilkynningar Norður-Kóreumanna um kjarnorkutilraun. „Ég held að Kínverjar geri sér grein fyrir því hvað þetta er alvarlegt mál,“ sagði Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem einnig fundaði með Tang.

Bandaríkjamenn vinna nú að því að fá öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja harðar refsiaðgerðir gegn N-Kóreu, og Rice sagði Kínverja einnig leggja sig fram á vettvangi SÞ, „og ég tel að við munum fá góða ályktun samþykkta er muni sýna N-Kóreumönnum fram á eindrægni alþjóðasamfélagsins í fordæmingu á tilrauninni“.

Rice sagði Kínverja gera sér grein fyrir því að með tilrauninni hafi Norður-Kóreumenn grafið undan stöðugleika og öryggi. Hún sagðist ekki viss um hvort öryggisráðið myndi greiða atkvæði um refsiaðgerðir á morgun, en að það yrði innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert