Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um íkveikju

Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað karlmann í gæsluvarðhald til tveggja vikna, vegna gruns um aðild að íkveikju í íbúðarhúsi í Þorlákshöfn. Krafist hefur verið gæsluvarðhalds yfir öðrum karlmanni og konu. Fimm voru handtekin í gær en við rannsókn á brunanum komu fram vísbendingar um íkveikju.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi kemur fram að maðurinn sem hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald var handtekinn í gær þar sem hann reyndi að nota greiðslukort sem stolið var úr húsinu í viðskiptum í Reykjavík.

Í tengslum við málið var gerð húsleit á tveimur stöðum, annarsvegar í Þorlákshöfn og hinsvegar í Reykjavík og fannst þýfi úr húsinu við leit á öðrum staðnum. Þar býr unnusta þess sem þegar hefur verið úrskurðaður í gæslu.

Hún er í haldi lögreglu og verður gerð krafa um gæsluvarðhald yfir henni sem og þriðja manninum sem einnig er í haldi lögreglu og grunaður er um aðild að málinu. 17 ára stúlku og tvítugum karlmanni sem handtekin voru í þágu rannsóknar málsins hefur verið sleppt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert