Davíð Oddsson: Of mikil samþjöppun er óæskileg og dulbúin frelsisskerðing

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði á Viðskiptaþingi í dag, að of mikil samþjöppun í efnahagslífinu væri í hans huga óæskileg og dulbúin frelsisskerðing. Sagði Davíð að það hafi kostað mikil pólitísk átök að ná allgóðri samstöðu um að ríkið hætti að leika aðalhlutverkið á íslenskum markaði og sá árangur hefði ekki náðst ef ekki hefði komið til skilningur fólksins í landinu á mikilvægi þess máls. Sagðist Davíð vera sannfærður um að stuðningur við þessa stefnu myndi fljótt fjara út ef þess væri ekki gætt að jafnvægi ríki á markaðnum og ekki gíni of fáir yfir of miklu. Þá sagði Davíð að það væri beinlínis hættulegt, að fyrirtæki sem væri í markaðsráðandi stöðu, ætti jafnframt fjölmiðla.

„Öflugir, traustir og heiðarlegir forustumenn í viðskiptalífi eru drifkraftur og velgjörðarmenn í frjálsum ríkjum og gera borgarana bjargálna. Þeir eiga að blasa við þegar fólkið horfir til fyrirmynda í efnahagsmálum en ekki fáeinir fjárplógsmenn ágjarnir, sem engu eira. Það er ekki sjálfgefið að við Íslendingar búum við lága skatta, jafnvægi í ríkisfjármálum, vaxandi kaupmátt og stöðugan hagvöxt. Það eru, því miður, sorglega mörg dæmi um hið gagnstæða víða um veröld, og ekki síst í okkar eigi sögu. Ákvörðun iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að skipa nefnd til að kanna þörf á sérstökum aðgerðum vegna hringamyndunar, var því bæði rétt og tímabær og skilar vonandi árangri,” sagði Davíð.

Hann sagði að við lagasetningu vegna hringamyndunar yrði að gæta að því að ýmsar reglur sem eðlilegar væru í stórum hagkerfum nágrannalandanna ættu ekki óbreyttar við í öllum tilvikum hér á landi. Leiða mætti t.d. að því líkur að það sé algengara hér að fyrirtæki séu í markaðsráðandi stöðu eða því sem næst, heldur en gangi og gerist annars staðar þar sem markaðirnir séu margfalt stærri.

„Framhjá því verður ekki horft að til að geta boðið almenningi þjónustu á sem bestu verði, þurfa fyrirtæki að ná ákveðinni lágmarksstærð og lágmarksstærð á litlum markaði kann í vissum tilvikum að þýða óþægilega sterka stöðu. Eins verða íslensk fyrirtæki að eflast nægjanlega til að geta sótt fram á erlendum markaði. Þessari vel undirbyggðu þörf fyrir lágmarksstærð má hins vegar ekki rugla saman við áráttu til hringamyndunar eða viljanum til að ná markaðsráðandi stöðu á fleirum en einum markaði. Þar á milli er himinn og haf," sagði Davíð.

Hann sagði að engin þversögn væri fólgin í því að setja reglur gegn hringamyndun og reglur sem tryggi eðlilegt starfsumhverfi fjölmiðla. Þvert á móti fari það allt saman í þeirri viðleitni að tryggja að það frjálsræði sem þjóðin skóp sér sjálf verði ekki saga ein heldur lifandi aflvaki allra framfara og blómlegs mannlífs. Sagði Davíð m.a. að það skipti máli hverjir ættu fjölmiðlana. Áður hefðu verið flokksmálgögn sem ætlað vara að vera málsvarar pólitískra skoðana eigenda sinna. Tími þessara málgagna væri liðinn en nú virtist vera runninn upp annar tími, tími fyrirtækjamálgagna og þau hefðu dýpri vasa en gömlu flokksblöðin sem börðust einatt í bökkum.

„Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar. Ég hef áður vikið að því að gera má ráð fyrir því að fyrirtæki nái markaðsráðandi stöðu hér á landi við það eitt að ná eðlilegri stærð. Við því er lítið að segja. En þá skiptir öllu máli, að fjölmiðlar sinni eftirlitshlutverki sínu af árvekni og ábyrgð. Almenningur verður að geta treyst því að fyrirtæki, sem eru í markaðsráðandi stöðu, hafi eðlilegt aðhald af fjölmiðlum, neytendavernd sé virk og tryggt sé að dregin sé upp hlutlaus og óbjöguð mynd af starfsemi slíkra fyrirtækja. Ef við eigum að umbera það í nafni hagkvæmni, að fyrirtæki hafi markaðsráðandi stöðu, þá verðum við að treysta því að þau hafi virkt aðhald frá fjölmiðlum. Annars hlýtur sú krafa að verða sterk, að löggjafinn setji slíkum fyrirtækjum strangari reglur en ella þyrfti. Það gefur því auga leið, að ekki er heppilegt að fyrirtæki sem eru í markaðsráðandi stöðu eigi jafnframt fjölmiðla. Það er beinlínis hættulegt. Enn fremur er varhugavert, að fyrirtæki sem er með yfirburði, jafnvel á fleiri en einum markaði, sé jafnframt í markaðsráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði. Engin leið er til þess að fjölmiðill, sem býr við slíkt eignarhald, geti með trúverðugum hætti sinnt skyldu sinni og veitt eiganda sínum það aðhald sem gera verður kröfu til. Vafalaust munu margir horfa til þessara sjónarmiða þegar málefni fjölmiðla verða til umfjöllunar á Alþingi,” sagði Davíð Oddsson.

Ræða Davíðs Oddssonar á Viðskiptaþingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka