Davíð Oddsson: Keppikeflið er frelsi allra en ekki fárra, stórra og sterkra

Davíð Oddsson tekur á móti gestum í afmælisveislu Sjálfstæðisflokksins á …
Davíð Oddsson tekur á móti gestum í afmælisveislu Sjálfstæðisflokksins á Nordica Hóteli í kvöld. mbl.is/ÞÖK

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í ávarpi á 75 ára afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins nú síðdegis, að keppikefli flokksins væri frelsi allra en ekki ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka sem notuðu afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum. Davíð sagði einnig að framtíð þjóðarinnar væri björt og útlit væri fyrir góðæri að minnsta kosti til ársins 2010 ef vel væri haldið á. Sagði Davíð að sjálfstæðismenn vildu að þess yrði minnst sem góðæris sem gekk til allra en ekki fárra.

Davíð sagði í ávarpi sínu, að Ísland væri komið í allra fremstu röð en verkinu lyki aldrei. Sjálfstæðisflokkurinn hefði ætíð sagt og myndi ætíð segja, að í hans stefnu væri frelsið ætíð í fyrirrúmi.

„Nú er sagt við okkur á þessum dögum: Undarlegur flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn að koma fram með lagafrumvarp og gera að lögum í samvinnu við aðra... þar sem þrengt er að frelsinu. Það er nú akkúrat ekki það sem gert er, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er sjálfum sér samkvæmur. Hann barðist fyrir því með oddi og egg, að á öllum sviðum þjóðlífsins yrði frelsið aukið vegna þess að hann trúði því og trúir enn að þá myndi fólkinu farnast best þegar svigrúm, kraftur og þor einstaklinganna fengi að njóta sín. Og það hefur reynst svo. Það var þess vegna sem sjálfstæðismenn börðust fyrir frjálsu útvarpi og frjálsu sjónvarpi," sagði Davíð.

Hann bætti við að enginn úr þeim flokkum, sem hefðu sameinast í Samfylkingunni, hefði treyst sér til að styðja þetta mál á sínum tíma. Nú brigsluðu þessir sömu menn sjálfstæðismönnum um ófrelsistilfinningar en því færi fjarri, því sjálfstæðismenn hefðu alltaf sagt að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki flokkur fárra heldur flokkur allra stétta.

„Og keppikeflið er frelsi fyrir alla, ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka sem nota afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum. Það er ekki okkar frelsi. Við trúum á þau grundvallaratriði sem í frjálshyggjunni búa. Við trúum á þau vegna þess að við vitum að fólkið sjálft á markaðnum, með undraskjótum og einföldum hætti, finnur lausnir á vandamálum sem fjögur þúsund stjórnskipaðar nefndir myndu ekki finna heldur flækja. Við trúum á lausnir markaðarins en þær leysa ekki allan vanda. Leikreglurnar verða að vera skýrar, ljósar og klárar og sanngjarnar og það verða allir að lúta þeim. Líka þeir sterku. Sjálfstæðisflokkurinn vill sjá um það," sagði Davíð.

Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn segði aldrei, að stuðningur við þá sem minna mættu sín væri aðeins fórnarkostnaður á frjálshyggjubraut. Það væri sjálfstætt markmið í sjálfu sér að gera hvern mann sjálfstæðan með trú á framtíðina svo hann geti fengið að njóta alls þess sem aðrir þeir, sem betur mættu sín, nytu. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn tryði ekki þessu, um leið og hann trúir á frelsið og kraft einstaklinganna, þá væri hann ekki samur flokkur, þá væri hann ekki fjöldaflokkur, þá væri hann ekki flokkur sem fólkið í þessu herbergi styður," sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka