Davíð Oddsson í samtali við Morgunblaðið: Enginn aðili geti náð hér yfirburðastöðu

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is

Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið, að stjórnmálamenn megi ekki heykjast á því „að setja viðskiptalífinu heilbrigðar lífsreglur þannig að enginn einn, tveir eða þrír aðilar geti náð yfirburðastöðu og drepið allt annað í dróma“.

Þegar fjölmiðlalög ber sérstaklega á góma segir Davíð, að menn verði að taka það mál alveg upp á nýtt en ekki á grundvelli fjölflokkaskýrslunnar, sem samin var, því niðurstaða hennar sé hvorki fugl né fiskur.

Í samtalinu, sem birtist í átta síðna blaðauka með blaðinu í dag, er stiklað á stóru í ævi og störfum Davíðs Oddssonar og hann segir stefnu sína í stjórnarmyndunum hafa verið snör handtök og stutta stjórnarsáttmála. Ríkisstjórnarsamstarf við Alþýðuflokkinn var handsalað í Viðey 1991 og við Framsóknarflokkinn á Þingvöllum 1995. Davíð segir að þeir Halldór Ásgrímsson hafi talað saman um páskana það ár á Þingvöllum, þar sem þeir dvöldu ásamt eiginkonum sínum, „og við Halldór handsöluðum stjórnarsamstarf, ef allt gengi eftir í okkar flokkum. Þetta handsal hélt, þrátt fyrir harða hríð vinstri flokkanna að Halldóri.“

Í samtalinu segir Davíð, að ástæða þess að hann beitti sér fyrir því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti á sínum tíma veiðigjald í sjávarútvegi þrátt fyrir ríka andstöðu hafi verið, að honum fannst kominn svo mikill óhugur í þjóðina, tortryggni og undirgangur út af deilunum um sjávarútvegsmálin, að finna yrði botn í málið, sem menn gætu unað sæmilega við.

Þegar Davíð lítur um öxl segist hann ekki vilja taka eitthvert eitt mál út úr, en segir sér efst í huga þær breytingar á andrúmi og umhverfi í þjóðfélaginu sem urðu í forsætisráðherratíð hans. Hann segir vald stjórnmálamanna hafa verið takmarkað mjög verulega og svigrúm fólks og fyrirtækja breytzt og aukizt svo um munar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka