Hælisleitandi í hungurverkfalli

mbl.is

„Ég er þreyttur,“ segir dr. Ot Alaas frá Síberíu sem sótti um pólitískt hæli hérlendis í desember. Dr. Alaas hefur ekkert heyrt um framgang máls síns og fyrir rúmri viku hóf hann hungurverkfall til að knýja á um skjótari meðferð.

Dr. Alaas er menntaður bæklunarskurðlæknir auk þess að vera blaðamaður en gagnrýnin skrif hans á stjórn Pútíns forseta Rússlands og stjórn hermála í landinu hafa orðið til þess að honum er ekki vært þar lengur.

„Eftir birtingu greinar gegn Pútín árið 2005 var ég barinn af þremur leyniþjónustumönnum sem sögðu að ef ég birti fleiri greinar gegn Pútínstjórninni hlyti ég verra af. Eftir árásina var ég með brotið nef, skaðað nýra og tvö brotin rif,“ segir hann.

Skrif dr. Alaas hafa einnig raskað lífi fjölskyldu hans. „Konan mín var í vinnu sem prófessor í háskólanum í Jakútsk en þurfti að hætta þar. Dóttir mín er við nám í Prag og hún þorði ekki að koma heim í sumarfríinu af hræðslu við leyniþjónustuna.“

Fáir fengið hæli

„Það eru ekki margir sem hafa fengið pólitískt hæli hér á landi,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, forstöðumaður hælissviðs Útlendingastofnunar. Lega landsins hafi til dæmis þau áhrif að það er sjaldnast fyrsti áfangastaður flóttamanna í Evrópu.

Hann tekur þó undir að afgreiðslutími þessara mála sé langur. „Við erum að vinna í að reyna aðstytta hann og gerum ráð fyrir að mál þessa manns fari í vinnslu núna með haustinu eins og margra annarra. En það er fólk sem hefur beðið hérna lengur.“ segir hann og bætir við: „Við erum ekki að skipta okkur af því hvað fólk borðar.“ Hann segir mál hælisleitenda þung í vinnslu. Rannsaka þurfi gaumgæfilega frásagnir fólks og sannreyna þær eftir getu. .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka