Ráðist með grjóti á 16 ára pilt í FSu á Selfossi

Fjölbrautarskóli Suðurlands
Fjölbrautarskóli Suðurlands mbl.is/Siguður Jónsson

Ráðist var á 16 ára gamlan pilt í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi sl. miðvikudag og hann laminn margsinnis með grjóti í höfuðið. Hann hefur fengið áverkavottorð og kært málið til lögreglu.

Sigríður Júlía Wíum, móðir piltsins, segir hann hafa farið í skólann í gær, en þar sem hann hafði miklar höfuðkvalir ákvað hún að fara með hann aftur til læknis að loknum skóladegi.

Hún lýsir atvikum svo: „Þetta byrjaði með því að þeir rákust á, bara eins og gengur og gerist, litu hvor á annan og það féllu blótsyrði á báða bóga. Svo fóru þeir hvor í sína áttina og málið virtist vera búið,“ segir hún. Svo var þó ekki því hinn strákurinn gekk út fyrir og náði sér, að því er virðist, í grjót sem hann beitti orðalaust á höfuð sonar Sigríðar þar sem hann sat í sófa ásamt vinum sínum á fyrstu hæðinni. „Strákurinn minn reyndi að beygja sig undan þessu, þetta voru töluvert mörg högg,“ segir hún. Mörg vitni urðu að árásinni og eitt þeirra sagði við son Sigríðar að lokinni árásinni „...ég hélt bara að hann ætlaði að drepa þig“. Hún er ekki sátt við að skólayfirvöld kölluðu hvorki til lækni né lögreglu eftir atvikið þrátt fyrir að það hafi gerst innan veggja skólans og sonur hennar sé aðeins 16 ára gamall.

Piltarnir voru báðir kallaðir til skólameistara eftir atburðinn. Sigríður frétti í gær að skólayfirvöld hefðu fært piltinn til lögreglu þar sem hann játaði verknaðinn og var í kjölfarið vísað úr skólanum.

Sagt var frá hópárás unglinga á pilt í FSu, sem gerð var fyrir fjórum vikum, í Morgunblaðinu sl. miðvikudag og er það mál til skoðunar í menntamálaráðuneytinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert