Bjarni friðar „skrímsladeildina“

Margir ráku upp stór augu þegar Bjarni Benediktsson sakaði ríkisstjórnina um að stórskaða hagsmuni landsins með því að kynna ekki fyrirvara við Icesave-samninginn sem gagntilboð. Sjálfstæðismenn stóðu að samþykkt fyrirvaranna í fjárlaganefnd.

Málið skýrðist nokkuð þegar Björn Bjarnason kallaði stjórnandstöðuna hjálparsveit ríkisstjórnarinnar á heimasíðu sinni. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur bendir á að það sé frekar óvanalegt í íslenskum stjórnmálum að  stjórnandstöðuflokkur láti frá sér tækifæri til að koma höggi á ríkisstjórnina.

Hann bendir á að ríkisstjórnin hafi líka teygt sig frekar langt í samkomulagsátt. Svo langt að það sé næstum því á gráu svæði hvort fyrirvararnir séu í raun gagntilboð. Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun klofinn í afstöðu sinni til málsins. Atvinnurekendur í röðum þeirra hafi til að mynda verið orðnir óþreyjufullir að ljúka málinu.

Ákveðinn hópur innan flokksins sem sé stundum kallaður skrímsladeildin sé ósáttur við að flokkurinn hafi gengist inn á stefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin kalli þetta fyrirvara en ekki gagntilboð sé hún að koma formanninum í bobba gagnvart þessum armi. Hún sé í raun að segja að það hafi ekki verið gengið að kröfu Bjarna Benediktssonar um nýjar samningaviðræður.

Bjarni sé hinsvegar að segja við sína eigin flokksmenn ekki síður en almenning, að þetta sé það róttæk breyting að hún jafngildi gagntilboði og það muni þurfa að semja upp á nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert