Ágúst var hægur og hlýr

Ágúst var sólríkur og hlýr.
Ágúst var sólríkur og hlýr. mbl.is/Golli

Nýliðinn ágúst var fremur hlýr um allt land, sólríkur á Suður- og Vesturlandi, en norðanlands og austan var sólarminna og sums staðar á þeim slóðum rigndi mikið. Veður var hægviðrasamt lengst af. Þetta kemur fram í veðuryfirliti Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 11,3 stig og er það 1,1 stig ofan meðallags. Er mánuðurinn því í flokki þeirra hlýju ágústmánaða sem hafa verið ríkjandi það sem af er öldinni. Á Akureyri var meðalhitinn 10,5 stig eða 0,5 stig ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 10,7 stig, 0,6 stig ofan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík mældist 52 millimetrar og er það um 16% neðan meðallags. Úrkoma á Akureyri var hins vegar um fjórðungur umfram meðallag, mældist 42 mm. Þetta er talsvert meiri úrkoma en í ágúst í fyrra, en svipað og nokkur árin næst þar á undan.

Sólskinsstundir í Reykjavík voru óvenju margar. Mældust þær 214 og eru það 59 stundir umfram meðallag, það mesta í ágúst frá 2004. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 86 og er það 49 stundum færra en í meðalári.

Er þetta minnsta sólskin í þessum mánuði á Akureyri frá 2005, en þá voru sólskinsstundirnar ívið færri en nú. Síðan þarf að fara 40 ár aftur í tímann til að finna færri sólskinsstundir á Akureyri í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka