Hlaut formlega vottun

Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum.
Frá æfingu Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Gufuskálum. Ljósmynd/Landsbjörg

Íslenska alþjóðasveitin hlaut afar góða umsögn frá fulltrúum INSARAG, sem eru samtök alþjóðlegra rústabjörgunarsveita og starfa undir hatti Sameinuðu þjóðanna, og formlega vottun sem fullgild alþjóðleg rústabjörgunarsveit. Sveitin æfði undanfarna daga á Gufuskálum á Snæfellsnesi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu segir í umsögninni að íslenska sveitin hafi sýnt mikla fagmennsku í öllum verkum sem leiddi til góðrar frammistöðu. Einnig hafi verið tekið eftir afar öguðum vinnubrögðum og góðum anda innan hennar.

Í sveitinni eru björgunarmenn sem hafa sérhæft sig í rústabjörgun, læknar, bráðatæknar, sérfræðingar í eiturefnum, fyrstuhjálpar- og fjarskiptamenn. Búnaður sveitarinnar vegur allt að 14 tonnum en umfang hans fer eftir þeim verkefnum sem sveitin er að fara í hverju sinni.

Þær einingar sem standa að sveitinni í dag eru Björgunarsveitin Ársæll, Hjálparsveit skáta Kópavogi, Hjálparsveit skáta í Reykjavík, Björgunarsveit Hafnarfjarðar og Björgunarsveitin Suðurnes. Einnig koma að henni Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landspítalinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert