Róttækari aðgerðir til handa heimilum

Tekjutenging afborgana af lánum eftir fyrirmynd námslánakerfisins er meðal hugmynda sem ræddar eru milli stjórnvalda og samtaka launþega og atvinnurekenda, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Á miðvikudag í síðustu viku var fundað um mögulegar almennar og róttækar aðgerðir til að lina vanda heimilanna og er ráðgert að halda þeim fundum áfram í þessari viku, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands.

Er að sögn stefnt á að kynna mótaðar hugmyndir tímanlega fyrir haustþing. Er dagsetningin 24. september nefnd, en stefnt er á að frumvarp liggi fyrir við þingsetningu 1. október. „Við skulum segja að menn séu að skoða aðgerðir á almennari grunni en þeim sem þegar hefur litið dagsins ljós,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, spurður hvort róttækar aðgerðir séu í vændum. Hann kveðst þó vera talsmaður ákveðins jarðsambands í sambandi við hvað sé hægt að gera.

Önnur hugmynd sem rædd hefur verið er að setja þak á það hversu mikið lán, ekki síst erlend, mega lengjast vegna greiðslujöfnunar, þar sem til gæti komið afskrift á því sem fer umfram þakið, til að forða fólki frá ævilangri skuldasúpu.

Heimildir innan stjórnarheimilisins herma hins vegar að allar hugmyndir séu ræddar á þeirri forsendu, að þær leiði ekki til meiri útgjalda fyrir ríkissjóð. Gylfi segir mikilvægt að nýjar aðgerðir tryggi betur jafnræði milli heimila og gangi yfir alla sem einn, óháð því hvar þeir tóku lán. „Svo efnahagsreikningur hverrar lánastofnunar ráði því ekki hvaða úrræði hver fjölskylda fær.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert