Hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, afhenti Eyþóri Árnasyni verðlaun Tómasar Guðmundssonar.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, afhenti Eyþóri Árnasyni verðlaun Tómasar Guðmundssonar. mbl.is/Kristinn

Eyþór Árnason, leikari og sjónvarpsstarfsmaður,  hlaut í dag bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni Hundgá úr annarri sveit.  Um er að ræða fyrstu ljóðabók Eyþórs.

Dómnefnd segir um bókina, að þar streymi ljóðmálið fram, sterkt og hugmyndaríkt. Kímnin sé aldrei langt undan og alls kyns furður geri vart við sig, „eins og þegar rjúpurnar hans Guðmundar í Miðdal sem gerðar eru úr gleri lifna við og láta sig hverfa. Í öðru ljóði leggja skip að bryggju bakvið mánann þar sem skuggalegir menn bíða með skjalatöskur. Og í enn öðru ljóði kemur Clint Eastwood ríðandi yfir Faxaflóann. Það er gnægð af skemmtilegri hugsun og hugmyndum í þessari ljóðabók."

Eyþór er fæddur árið 1954. Hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1983.  Hann hefur m.a. starfað hjá Stöð 2 og Saga Film sem sviðsstjóri en starfar nú sjálfstætt.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar skálds fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Verðlaunin voru veitt fyrst árið 1994. Í ljóðasamkeppni um bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar bárust að þessu sinni 42 handrit. Í dómefnd sátu Kolbrún Bergþórsdóttir formaður, Ingibjörg Haraldsdóttir og Jón Óttar Ragnarsson.

Verðlaunaféð nemur 600 þúsund krónum. Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður. Ljóðabókin Hundgá úr annarri sveit  kom út á vegum bókaforlagsins Uppheima um leið og verðlaunaafhendingin fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert