Dæmdur fyrir að hafa haft samræði við 13 ára barn

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands.

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag tæplega fertugan karlmann í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft í tvígang samræði við 13 ára gamla stúlku í september í fyrra. Þá er honum gert að greiða stúlkunni 400.000 kr. í miskabætur og 697.000 kr. í sakarkostnað.

Hann var ákærður fyrir kynferðisbrot og sakaður um að beita stúlkuna ólögmætri nauðung og með því að notfæra sér ölvunarástand og reynsluleysi hennar og yfirburðastöðu vegna aldursmunar og líkamsburða, svo hún gæti  ekki spornað við samræðinu.

Þá var hann ákærður fyrir áfengislagabrot, með því að hafa fyrr um kvöldið og fram eftir nóttu veitt stúlkunni og jafnöldru hennar áfengi á meðan þær dvöldu heima hjá honum.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa í tvígang með stuttu millibili haft samræði við stúlkuna aðfaranótt laugardagsins 6. september 2008. Fram kemur í dómi héraðsdóms að það teljist því sannað með játningu mannsins og framburði stúlkunnar að þau hafi haft samræði í þau tvö skipti sem tilgreind eru í ákæru.

Maðurinn neitaði hins vegar sök á þeim grundvelli að hann hefði talið stúlkuna vera 15 ára gamla og að hann hefði hvorki beitt stúlkuna ólögmætri nauðung né notfært sér ölvunarástand hennar og reynsluleysi og yfirburðastöðu vegna aldurs og líkamsburða, svo hún gæti ekki spornað við samræðinu.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að ekki hafi tekist að sanna að karlmaðurinn hefði beitt stúlkunni ólögmætri nauðung er hann hafði samræði við hana í tvígang.  Þá segir jafnframt að ekki sé talið að maðurinn hefði notað sér ölvunarástand stúlkunnar, reynsluleysi og yfirburðastöðu vegna aldursmunar og líkamsburða svo hún gæti ekki spornað við samræðinu. Hann var því sýknaður af þeim þætti ákæruliðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert