Josefsson gagnrýnir seinagang stjórnvalda

Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins.
Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn bankakerfisins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Svo virðist sem endurreisn efnahagslífisins sé ekki í forgrunni hjá stjórnvöldum þessa dagana,“ segir Mats Josefsson, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. „Skortur á pólitískri ákvörðunartöku er það sem helst stendur í vegi fyrir viðreisn íslensks efnahags um þessar mundir.“
 
Josefsson var nokkuð harðorður í garð stjórnvalda í ræðu á ráðstefnu Capacent Glacier sem nú stendur yfir á Grand Hótel. Gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir seinagang og sagði viðreisnina ekki hafa tekið jafn langan tíma í öðrum löndum og í fyrri kreppum. Þá sagði hann stjórnvöld ekki hafa lært nægilega mikið af reynslu annarra þjóða.
 
Viðreisnin verði samhæfð
 
„Meginveikleikinn í endurreisn stjórnvalda er að engin ein stofnun ber endanlega ábyrgð á því að ákvörðun sé tekin,“ sagði Josefsson. Nauðsynlegt sé að samhæfa aðgerðir, en til þess þurfi að koma á fót stofnun sem hefur yfirumsjón með endurreisninni. Til að auka traust á ferlinu þyrfti einnig að sjá til þess að ein stofnun beri ábyrgð á að koma upplýsingum til almennings og kröfuhafa.
 
Josefsson sagði þó að eitt og annað jákvætt mætti segja um aðgerðir stjórnvalda að undanförnu. Sem dæmi væri gott að svo virðist sem niðurstaða í Icesave málinu sé í sjónmáli. Það hafi dregist of mikið á langinn, og hafi grafið enn meira undan traust á íslensku efnahagslífi.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert