Umhverfisráðherra skoðaði gosið

Vont veður var við gosstöðvarnar í dag og spáð er …
Vont veður var við gosstöðvarnar í dag og spáð er slæmu veðri á morgun. Landhelgisgæslan

„Þetta var einstök upplifun,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sem í dag skoðaði gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Hún flug með vél Landhelgisgæslunnar ásamt Kjartani Þorkelssyni sýslumanni á Hvolsvelli og fleirum.

Vont veður var á svæðinu og skyggni lélegt. Svandís sagði að það hefði hins vegar opnast gluggi og mönnum gefist tækifæri til að sjá gosið.

Eftir flugið heimsótti Svandís Veðurstofuna og fór yfir vöktunarprógramm Veðurstofunnar. „Við eigum topp vísindamenn í þessum geira. Viðbragðsáætlun Almannavarna og þessi mikla skýrsla sem liggur fyrir um hættumat á þessu svæði sem gerð var árið 2005 af ríkislögreglustjóra og vísindamönnum er grunnurinn sem öll þessi yfirveguðu viðbrögð byggja á.“

Veðurstofan hefur umsjón með allri náttúruvá á Íslandi, hvort sem það er veður, eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð, vatnsflóð eða annað. Svandís sagði mikilvægt að þessi vöktun sé pottþétt. Vinnubrögð viðbragðsaðila og þeirra sem sinntu eftirliti væru öll  til fyrirmyndar.

Að sögn vísindamanna hefur tækjabúnaður flugvélar Landhelgisgæslunnar haft gífurlega mikið að segja til að greina umfang og eðli eldsumbrotanna. Með búnaðnum er búið að kortleggja svæðið vandlega og hægt er að sjá tafarlaust þær breytingar sem verða á gosstöðvunum og svæðinu í kring.
 

Slæmt veður var á gossvæðinu í dag þegar flugvél Landhelgisgæslunnar var yfir gosstöðunum á Fimmvörðuhálsi, en þó var hægt að ná þokkalegum myndum, bæði á radar og Canon myndavél. Gufustróka leggur upp frá svæðinu þar sem hraun er farið að renna til NA fram af fjallabrúnum í átt að Þórsmörk. Í 7000 fetum sést enginn strókur upp úr skýjum, en þó voru að koma smá bólstrar upp úr skýjahulunni vestan við svæðið.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, fer yfir gögn með Svandísi Svavarsdóttur, …
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðvísindamaður, fer yfir gögn með Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert