Hraunfoss á við tvo Dettifossa

Efst var hraunfossinn á við Háafoss, svo breiddi hann úr …
Efst var hraunfossinn á við Háafoss, svo breiddi hann úr sér og varð eins og tveir Dettifossar. Ómar Ragnarsson

Hraunfossinn í Hrunagili við Heljarkamb breiddi skyndilega úr sér og varð neðri hluti hans á við tvo Dettifossa eða um 80 metra breiður. Efst er fossinn eins og ríflegur Háifoss en breiðir svo úr sér þar fyrir neðan, að sögn Ómars Ragnarssonar fréttamanns.

„Þetta gerði hann bara í um það bil tíu mínútur,“ sagði Ómar í samtali við mbl.is. „Ég er búinn að fljúga þarna yfir í þrjá daga, margar margar ferðir. Þetta er i eina skiptið sem hann gerði þetta.“

Ómar sagði að hraunstraumurinn sé kominn fram um tvo þriðju hluta af Hrunagilinu.  Aurar Krossár ná svolítið inn í gilið. Ómar telur að ef gosið heldur áfram líði ekki margir dagar þar til hraunið nær fram á aurana.

Hraunið er búið að bræða að mestu þær fannir sem voru í Hrunagili og sagði Ómar að nú komi lítill gufumökkur upp úr gilinu. 

Ómar kvaðst hafa séð 20 eldgos á undan þessu. Hann taldi að Kröflueldarnir 1981 og 1984 hafi verið „miklu flottari gos en þetta, meira hraun og fjölbreyttara sjónarspil - nema fossinn,“ sagði Ómar. Þá sagði hann að Grímsvatnagosin og Gjálpargosið hafi verið eftirminnileg og gríðarlega öflug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert