Askan fýkur til Evrópu

Gráleit öskutungan til austurs og suðausturs frá Íslandi á hádegi …
Gráleit öskutungan til austurs og suðausturs frá Íslandi á hádegi í gær. mynd/NASA

Öskudreifingin frá gosinu í Eyjafjöllum kemur vel fram á myndum frá gervihnöttum, eins og Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur bendir á á vefsíðu sinni í morgun. Meðfylgjandi mynd er frá einum af gervihnöttum NASA á hádegi í gær.

„Þar má greinilega sjá öskudreifina frá gosinu í Eyjafjallajökli, eins og langa tungu sem teygir sig til austurs og austsuðausturs, þar sem hún sleikir strendur Bretlandseyja og Skandinavíu. Þótt öskufall sé mjög lítið, þá er askan útbreidd og mælitækin svo næm að útbreiðslan kemur vel fram. Tæknin er orðin ótrúleg!" segir Haraldur á vef sínum en hann hefur verið í nágrenni gosstöðvanna að fylgjast með þróun mála.

Haraldur spyr flugmenn ennfremur þeirrar spurningar, hvort ekki sé hægt að leggja flugleið milli Evrópu og N-Ameríku framhjá öskuskýinu.

„Það litla sem fellur til jarðar af ösku á Mýrdalssandi er mjög fín aska, líkust hveiti. Hún er svo smákornótt eða fín að hún berst lítið til jarðar en dreifist með minnsta vindi til austurs.  Gufusprengingarnar sem eru nú í gangi í toppgíg Eyjafjallajökuls eru af því tagi sem mynda mjög fína ösku.  Það er alls ekki víst að vitneskja um svona gos varðveitist sem þekkjanlegt öskulag í jarðvegi," segir Haraldur.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi á dögunum.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi á dögunum. Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka