Vatnsborð í Gígju hækkar

Vatnamælingamenn mæla rennsli í Skeiðará í hlaupinu 2004.
Vatnamælingamenn mæla rennsli í Skeiðará í hlaupinu 2004. Rax / Ragnar Axelsson

Að sögn Einars Kjartanssonar, jarðeðlisfræðings á Veðurstofu Íslands, virðist ekki hafa dregið úr hlaupi í Grímsvötnum, en vatnsborðið í Gígju hækkaði töluvert í nótt. „Rafleiðnin hefur einnig aukist töluvert sem er nokkuð sterk vísbending um að þarna sé raunverulega vatn sem er ættað úr jarðhita.“ 

Einar segir að ekkert bendi til þess að eldgos sé að hefjast. Engin stórir skjálftar mældust á svæðinu í nótt.

Hlaup hófst í Gígjukvísl síðdegis í gær í kjölfar jarðhræringa við Grímsvötn í Vatnajökli.Nokkrir dagar geta liðið þar til það nær hámarki.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í gær að líkur séu á því að gos hefjist í eldstöðinni í Grímsvötnum í kjölfar hlaupsins enda geti hlaup virkað eins og „gikkur“ á eldgos.

„Það er hins vegar dálítið erfitt að segja fyrir um það hversu næmur þessi gikkur er. Við sjáum þó að sama staða er uppi og árið 2004 þegar síðasta gos varð. Þá var eldstöðin búin að safna nægilegri kviku og þrýstingurinn í henni hafði hækkað. Það sama er að gerast núna – það er mikið af kviku í kvikuhólfinu undir Grímsvötnum og þrýstingur þar er hár og því ekki ólíklegt að atburðirnir frá 2004 endurtaki sig.“

Í hlaupinu sem varð árið 2004 rann vatnið í Skeiðará en farvegur hennar er nú þurr vegna mikilla breytinga sem hafa orðið við jökulsporðinn. Jökullinn hefur hopað og því rennur allt vatn sem kemur undan jöklinum vestur með honum og í Gígju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert