Hálf milljón í bætur fyrir misheppnaða brjóstaminnkun

Íslenska ríkið var dæmt í morgun til að greiða konu á fimmtugsaldri 500 þúsund krónur í bætur fyrir misheppnaða brjóstaminnkunaraðgerð á Landspítalanum en hún krafðist 22,6 milljóna.

Aðgerðin á konunni var framkvæmd árið 1991 en í kjölfar hennar fékk konan drep í stóran hluta geirvörtu og gera þurfti margar lýtaaðgerðir í framhaldi af upphaflegri aðgerð.

Var fallist á að brjóst konunnar hafi verið gerð minni en tæknilegar og heilsufarslegar ástæður gáfu tilefni til og ályktað að þessi vansmíð hafi valdið því að annarrar aðgerðar var þörf. Ómótmælt var að afleiðingar upphaflegu aðgerðarinnar á heilsu og líðan konunnar hafi verið miklar og langvarandi. Fjölmargar skurðaðgerðir og önnur meðferð hafi fylgt í kjölfarið. Komst Héraðsdómur Reykjavíkur þó að þeirri niðurstöðu að ekki yrði talið að spítalinn beri skaðabótaábyrgð á ætlaðri örorku konunnar sem varð vegna drepsins.

Málskostnaður var felldur niður og allur gjafsóknarkostnaður konunnar dæmdur á ríkissjóði, þar með talinn einnar milljónar króna málflutningsþóknun lögmanns hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert