Urðu fyrstir til að klífa eina erfiðustu háfjallaleið landsins

"Við Ívar höfðum aldrei áður fallist í faðma, en þarna gerðist það í fyrsta skipti. Við vorum skýjum ofar og það var æðislegt að komast á tindinn," segir Einar Rúnar Sigurðsson fjallgöngumaður um sögulegan áfanga í íslenskri fjallgöngusögu, sem náðist á laugardag.

Þá urðu þeir Ívar F. Finnbogason fyrstir manna til að klífa eina alerfiðustu "alpa" klifurleið landsins, sjálfan austurvegg Þverártindseggjar í Suðursveit. Fjallið er 1.554 m hátt og er óárennilegur austurveggurinn með erfiðustu klifurleiðum sem fyrirfinnast hérlendis. Þeir félagar hafa lengi beðið eftir réttum aðstæðum á fjallinu og létu loks til skarar skríða á laugardag. Klifurleiðin sjálf er um 400 m löng og tók klifrið níu klukkustundir að meðtaldri niðurferðinni. Einar og Ívar eru í hópi reyndustu fjallagarpa landsins, en samt reyndist þeim klifrið síður en svo létt. Fullyrðir Einar, sem er fjallaleiðsögumaður og þrautreyndur klifrari, að austurveggurinn sé erfiðasta verkefni sem hann hafi tekist á við.

Lá við yfirliði af kvölum

Erfiðasti hluti leiðarinnar spannaði síðustu 80 metrana, en þegar lokaatlagan hófst var Einar orðinn gríðarlega þreyttur. Á þeirri stundu vissi hann ekki að í rauninni höfðu þeir aðeins lagt að baki "létta" hlutann, sem þó er 300 m langur. Erfiðasti kaflinn var hins vegar eftir. "Sem betur fer tók Ívar nú við hlutverki forgöngumanns, því ég treysti mér ekki til þess," segir hann. Ívar klifraði því fyrstu 25 metrana og Einar fylgdi í kjölfarið, þótt kálfavöðvarnir loguðu af sársauka vegna þreytu. Og enn jukust vandræðin þegar hann fékk það ægilegasta naglakul, sem hann hefur á ævi sinni upplifað. Fingurnir höfðu kólnað á meðan hann hélt höndunum fyrir ofan sig í klifrinu, en þegar blóðið fór að renna aftur út í fingurna hófust gríðarlegar kvalir. "Mér lá við yfirliði og minnstu munaði að ég dytti út. Ég grenjaði af sársauka í um 10 mínútur og það var að lokum orðið vandræðalegt fyrir Ívar að horfa upp á þetta." Þegar þarna var komið sögu héldu þeir að e.t.v. væru 15 metrar eftir upp á tind, en það voru þá 55 erfiðir metrar. "Það var brjálæði og erfiðara en við héldum," segir Einar. Nú tóku við fimm yfirhangandi íshöft, hvert öðru erfiðara og alversta haftið beið efst. Þar var varla fótfestu að hafa og þurfti Einar að vega sig upp á ísöxunum einum saman með fæturna dinglandi yfir gapandi hyldýpinu, algjörlega þrotinn að kröftum. "Ég var á síðasta bensíndropanum og bókstaflega öskraði mig upp síðustu metrana," segir Einar. Sigurinn var í höfn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert