Stjórnarandstaðan segist fagna uppgjöf ríkisstjórnarinnar

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem mynda minnihluta allsherjarnefndar Alþingis, skiluðu í dag áliti um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem nú er verið að fjalla um á Alþingi en þingfundur hófst klukkan 13:30. Í álitinu segist nefndarminnihlutinn fagna uppgjöf ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í málinu og lýsir ánægju með breytingartillögur sem ganga út á að fella út úr frumvarpinu þau efnisatriði sem eru nánast samhljóða ákvæðum hinna umdeildu fjölmiðlalaga frá í vor. Jafnframt er ítrekaður fyrirvari um þá aðferð að ætla að sneiða hjá þegar ákveðinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Í ljósi alls þess umróts og ófriðar sem afstaða ríkisstjórnarinnar hefur þegar skapað um fjölmiðlalögin er rík þörf á því að lyktir málsins verði með þeim hætti að ekki sé unnt að vefengja þær. Stjórnarandstaðan telur því að æskilegasta og lýðræðislegasta leiðin í núverandi stöðu sé að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram," segir í nefndarálitinu.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þegar hann mælti fyrir nefndarálitinu, að ríkisstjórnin hefði gjörtapað 100 daga stríðinu um fjölmiðlafrumvarpið. Þetta væri „Waterloo stjórnarflokkanna" og þeir væru þrotnir að kröftum og ríkisstjórnin myndi ekki lifa út kjörtímabilið.

Í nefndarálitinu segir einnig, að við blasi, að ríkisstjórnarflokkarnir hyggist nú tengja endurskoðun á 26. gr. stjórnarskrárinnar og afnám málskotsréttarins við afdrif núverandi fjölmiðlalaga. Þetta sé gert þrátt fyrir skýrar yfirlýsingar forustumanna stjórnarflokkanna í ljósvakamiðlum 20. júlí sl. Skýringin sem nú sé gefin sé að stjórnskipuleg óvissa ríki um beitingu ákvæðisins og stjórnlagakreppa hafi skapast af þeim sökum. Stjórnarandstaðan telji fráleitt að tengja endurskoðun stjórnarskrár, hvað þá 26. gr. sérstaklega, við afnám fjölmiðlalaganna.

Segist stjórnarandstaðan ítreka að án málskotsréttarins, sem höfundar stjórnarskrárinnar skrifuðu á sínum tíma inn í frumvarp að henni að vandlega íhuguðu máli, þá hefðu fjölmiðlalögin aldrei verið dregin til baka. Stjórnarandstaðan hafni því að afnám málskotsréttarins eigi að verða plástur á sár forsætisráðherra vegna hrakfarar ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlamálinu.

Nefndarálit stjórnarandstöðunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert